Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Garðabær - Viðmiðun við lækkun fasteignaskatta til ellilífeyrisþega

Bergur Bjarnason og Guðrún Gísladóttir                        13. júlí 1999                                                                99040036

Kirkjulundi 8                                                                                                                                                                   1110

210 Garðabær

 

 

 

 

          Þriðjudaginn 13. júlí 1999 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

          Með erindi, dagsettu 7. apríl 1999, kærðu Bergur Bjarnason og Guðrún Gísladóttir, Kirkjulundi 8 (íbúð 316), Garðabæ, ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 10. mars 1999 um að hafna beiðni um lækkun fasteignagjalda af húseigninni Kirkjulundi 8 fyrir árið 1999.

 

          Kæran var send bæjarstjórn Garðabæjar til umsagnar með bréfi , dagsettu 19. apríl 1999. Umsögn barst ráðuneytinu hinn 12. maí 1999 með bréfi, dagsettu 8. sama mánaðar.

 

I.        Málavextir og málsástæður.

 

          Með bréfi kærenda til bæjarritara Garðabæjar dags 15. febrúar 1999 var óskað eftir lækkun á fasteignagjöldum  fyrir árið 1999 af fasteigninni Kirkjulundur 8 (íbúð 316), Garðabæ, með vísan í 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, þar sem sveitarstjórn er heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Með bréfi bæjarritara Garðabæjar dags 10. mars 1999 var allri lækkun fasteignaskatts af framangreindri húseign hafnað þar sem brúttótekjur kærenda voru umfram þau mörk sem sett voru af bæjarstjórn Garðabæjar í sérstakri samþykkt um reglur, við mat á því hverjir teljist tekjulitlir elli- og örorkulífeyrisþegar.

 

          Kærendur gera þær kröfur að sú ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar að leggja til grundvallar brúttótekjur kærenda, þ.e. tekjur og fjármagnstekjur, við mat á því hvort til greina komi að lækka eða fella niður fasteignaskatt af fasteign þeirra Kirkjulundi 8 (íbúð 316), Garðabæ, verði hrundið og stuðst verði eingöngu við tekjuskattstofn kærenda árið 1998 (er 1999 í kærunni) samkvæmt skattframtali. Máli sínu til stuðnings vísa kærendur til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 97/1996 um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þar sem segir að fjármagnstekjur skulu ekki taldar til tekjuskattstofns til viðmiðunar við útreikning bóta eða annarra greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um húsaleigubætur eða öðrum lögum nema sérstaklega sé kveðið á um það í þeim lögum.

 

          Í umsögn Garðabæjar kemur fram að samkvæmt 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 ráða sveitarstjórnir málefnum sínum sjálf á eigin ábyrgð. Bæjarstjórn Garðabæjar hefur sett sérstaka samþykkt um reglur sem notaðar eru við mat á því hverjir teljast tekjulitlir og komi til greina að fá lækkun eða niðurfellingu fasteinaskatt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Í umsögninni segir ennfremur:  „Ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar að miða við brúttótekjur þ.m.t. vaxtatekjur og aðrar fjármagnstekjur, við mat á því hverjir teljast tekjulitlir, sætir frjálsu mati bæjarstjórnar og verður efnishlið þeirrar ákvörðunar ekki borin undir úrskurðarvald félagsmálaráðuneytisins á grundvelli sveitarsrnarlaga og er því gerð krafa um að ráðuneytið hafni kröfum kærenda í málinu.“

 

          Bæjarstjórn Garðabæjar telur að 2. mgr. 7. gr. laga nr. 97/1996 um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, setji á engan hátt skorður við setningu reglna um lækkun fasteignaskatts hjá elli- og örorkulífeyrisþegum samkvæmt heimildarákvæði 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, enda sé í engu vikið að því í ákvæðinu að leggja eigi til grundvallar tekjuskattstofn viðkomandi einstaklinga. Í fyrrgreindum reglum sem bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt eru brúttótekjur viðkomandi einstaklinga lagðar til grundvallar, alveg óháð því hvort tekjurnar eru skattskyldar eða ekki. Telur bæjarstjórn Garðabæjar tekjuskattstofn ekki vera eins réttlátan mælikvarða, þar sem ekki eru mældar heildartekjur einstaklinga þar sem um getur verið að ræða frádrætti frá heildartekjum áður en tekjuskattstofn er reiknaður út. Að mati bæjarstjórnar Garðabæjar eru vaxtatekjur eins og hverjar aðrar tekjur er aðilar hafa til ráðstöfunar.

 

II.      Niðurstaða ráðuneytisins

 

          Í 78. gr. stjórnarskrárinnar segir svo: „Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.“

 

          Í 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er svohljóðandi ákvæði:  „Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.“  Sveitarstjórnum er samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 heimilt í tilteknum tilvikum að lækka eða fella niður fasteignaskatt og hljóðar ákvæðið svo: „Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.“

 

          Af framangreindum ákvæðum telur ráðuneytið ljóst að sveitarfélög hafa sjálfsákvörðunarrétt í þeim málum er lúta að lækkun eða niðurfellingu á fasteignaskatti sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.  Í því felst að sveitarstjórn ákveður hvort heimild 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 verði notuð og jafnframt við hvaða mörk skuli miða þegar ákvarðað er hverjir falla undir heimildina, þ.e. teljast tekjulitlir í skilningi ákvæðisins.  Við setningu reglna sinna og mat á því hverjir falla undir reglurnar ber sveitarstjórnum að gæta málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 97/1996 um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, breyta engu þar um, enda ekki kveðið á um það í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 að miða skuli við tekjuskattstofn við lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts og ekki unnt að líta svo á að lækkun eða niðurfelling fasteignaskatts séu bætur eða aðrar greiðslur í skilningi síðast talda ákvæðisins.

 

          Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að bæjarstjórn Garðabæjar hafi verið heimilt að setja reglur um að miða við brúttótekjur, þ.m.t. vaxtatekjur og fjármagnstekjur, vi ðmat á því hvort elli- og örorkulífeyrisþegar teljist tekjulitlir í skilningi 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

 

          Dregist hefur að kveða upp úrskurð þennan vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

          Hafnað er kröfu um að félagsmálaráðuneytið ógildi ákvörðun Garðarbæjar, sbr. bréf dagsett 10. mars 1999, um að hafna beiðni Bergs Bjarnasonar og Guðrúnar Gísladóttur um lækkun fasteignaskatts af húseigninni við Kirkjulund 8 (íbúð 316) fyrir árið 1999.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

Afrit:  Garðabær.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum